Geislavarnir ríkisins skulu samkvæmt lögum annast m.a. „geislunarlegan þátt viðbúnaðar við hvers kyns geislavá, m.a. greiningu á ógn af hennar völdum, samhæfingu viðbúnaðar við alþjóðleg viðmið, rekstur viðbúnaðar- og geislamælikerfa og annað því tengt“.

Geislavarnir ríksins leggja áherslu á að greining og ráðgjöf stofnunarinnar sé byggð á viðmiðum sem njóta alþjóðlegrar viðurkenningar, t.d. þeim sem Alþjóðakjarnorkumálastofnunin (IAEA) hefur gefið út í samvinnu við aðrar alþjóðastofnanir og samtök. Jafnframt að það sé ljóst og gagnsætt, jafnt innlendum sem erlendum aðilum, hverjar þessar viðmiðanir eru. Alþjóða kjarnorkumálastofunin (IAEA) brást við þessari þörf og gaf árið 2006 út leiðbeiningarit fyrir viðbragðsaðila í samvinnu við Alþjóða heilbrigðismálastofnunina (WHO), Alþjóða brunavarnarmálanefndina (CTIF) og Amerísku heilbrigðismálastofnunina (PAHO). Efni ritsins varð fjótlega mjög eftirsótt og IAEA brást við með því að setja það á vefform á vefsetri stofnunarinnar.

Að mati Geislavarna ríkisins mátti gera betur, t.d. nýta nútíma vefstaðla til að útbúa eins konar farvef, nýja létta útgáfu vefsins sem notendur gætu sett upp á eigin tölvum, snjallsímum og lófatölvum og jafnframt þýtt og aðlagað að vild. Þetta hefur einnig þann kost að notandi þarf ekki að vera nettengdur og svörun vafra verður mun skjótari. Hugmyndin féll í góðan jarðveg hjá IAEA og voru tveir sérfræðingar fengnir til að aðstoða stofnunina við þessa þróun, Thomas O'Connell frá Bandaríkjunum (leiðandi ráðgjafi á sviði fyrstu viðbragða við geislavá) og Sigurður Emil Pálsson, Geislavörnum ríkisins.

Frumgerð farvefsins var kynnt hjá IAEA á síðasta ári og viðbúnaðardeild stofnunarinnar kynnti í fréttabréfi síðasta mánaðar uppfærða útgáfu vefsins. Hana má nálgast á eftirfarandi slóð og er framlags Íslands og Bandaríkjanna til þróunar vefsins getið þar sérstaklega: http://www-ns.iaea.org/tech-areas/emergency/iec/frg/fra.htm

Farvefurinn (og hefðbundin útgáfa fyrir borðtölvur) hafa fengið mjög jákvæðar viðtökur erlendis og er hann orðinn sá alþjóðlegi grunnur sem margar viðbúnaðarstofnanir miða við varðandi fyrstu viðbrögð við geislavá (t.d. FEMA í Bandaríkjunum). Geislavarnir hafa einnig útbúið leiðbeiningar um uppsetningu og notkun farvefsins fyrir innlenda samstarfsaðila (sjá skjalið Viðbúnaður – Farvefur IAEA og Geislavarna ríkisins á /fraedsluefni/geislavirkni/). Bindur stofnunin vonir við að með þessu verði þetta samstarf komið með sýnilegum hætti á alþjóðlega viðurkenndan grunn, sem er mjög mikilvægt ef bregðast þarf við geislavá í samvinnu við aðrar þjóðir.