Ísland er m.a. aðili að tveimur samningum á vegum IAEA, um tilkynningar og aðstoð ef kjarnorkuslys ber að höndum eða neyðarástand skapast af völdum geislunar. Á tveggja ára fresti eru haldnir fundir allra ríkja og samtaka sem eiga aðild að samningunum og er þessum fundum ætlað að samræma útfærslu á framkvæmd samninganna og fylgja þeim eftir.

Fyrsti fundur þessarar tegundar var haldinn sumarið 2001 (og síðan 2003 og 2005). Gagnsemi fundanna er að koma æ betur í ljós, enda árangur starfs vinnuhópa að skila sér. Upplýsingar berast nú greiðar á milli ríkja (lægri þröskuldur), meiri samhæfni er orðin á milli mismunandi kerfa sem dreifa upplýsingum, markmið er eitt samræmt alþjóðlegt kerfi. Þessi þróun er mikilvæg fyrir Íslendinga, því eldri kerfi eru oftast sérhæfð og kerfjast töluverðs kostnaðar við tengingu og rekstur. Ný kerfi byggja á almennari tækni (t.d. Netinu og Veraldarvefnum), krefjast ekki sérhæfðs búnaðar eða forrita og eru mun ódýrari í uppsetningu og rekstri (bæði með tiltillit til útgjalda og sérfræðiþekkingar). Til samanburðar má nefna mikilvægi þess þegar tókst að fá séríslenska bókstafi með inn í staðla um upplýsingatækni. Gríðarlegur sparnaður hlaust af því að ekki þurfti lengur að breyta tölvubúnaði og forritum til að hægt væri að nota íslenskan texta og hefur þetta verið forsenda mikillar útbreiðslu tölvutækninnar á Íslandi. Vaxandi notkun almennra lausna í viðbúnaðarkerfum gegn geislavá skiptir einnig miklu máli fyrir aðgengi og not Íslendinga af slíkum kerfum, hún væri alltof kostnaðarsöm annars.

Geislavarnir ríkisins hafa beitt sér fyrir þessari þróun árum saman, á framangreindum fundum og í vinnuhópum á þeirra vegum. Upplýsingakerfin gera Geislavörnum kleift að veita aðgengi að íslenskum mæligögnum jafnframt því sem stofnunin hefur aðgengi að gögnum mælistöðva víða um heim og getur jafnframt fengið upplýsingar um ýmis konar atvik tengd geislun og mat á áhrifum þeirra. Slíkt mat er nauðsynlegt, hvort sem um alvarleg slys eða minni háttar atvik er að ræða. Geislatengd atvik vekja venjulega mikla athygli og hafa margvísleg áhrif, m.a. á ferðamennsku og alþjóðleg viðskipti með matvæli.

Fundurinn er einnig mikilvægur vegna þess að þarna er að finna flest lykilfólk á sviði tæknilegrar útfærslu viðbúnaðar gegn geislavá í öllum löndum heims. Á fundinum fékkst t.d. aðgangur að upplýsinga- og greiningarkerfum í öðrum löndum jafnframt sem rætt var um aðgang að ýmsum alþjóðlegum kerfum (t.d. viðbúnaðarkerfinu ARGOS, sem hefur verið þróað á vegum dönsku almannavarnastofnunarinnar og er notað af flestum grannríkjum okkar).

Sjá einnig eldri fétt :  8. ágúst