Kynning á starfsemi viðbúnaðarmiðstöðvar IAEA

Miðstöðin er lítil og fámenn, hennar hlutverk er fyrst og fremst að miðla upplýsingum, stuðla að samhæfingu og efla tengslanet innan viðbúnaðar. Mikilvægt sé að allir taki virkan þátt í þessu starfi, byggi jafnvel upp hæfni til að geta veitt aðstoð með samræmdum hætti sem skilgreindur hefur verið á vegum viðbúnaðarmiðstöðvarinnar. Ef viðkomandi land þurfi síðan að þiggja aðstoð, þá sé það mun betur í stakk búið en ella. Erlendir aðilar sem veita aðstoð geti þá gengið að samræmdu viðbúnaðarumhverfi.

Sem dæmi um góðan árangur sem hægt er að ná má nefna að þann 15. desember árið 2005 barst miðstöðinni beiðni um aðstoð frá Chile. Verkamaður þar hafði af slysni orðið fyrir of mikilli geislun. Fyrir tilstuðlan miðstöðvarinnar var samræmd alþjóðleg aðstoð veitt í skyndi og valinn hópur sérfræðinga frá ýmsum löndum lagði af stað innan sólarhrings eftir að beiðni um aðstoð barst. Skjót viðbrögð gerðu kleift að bjarga lífi mannsins, í öðrum tilsvarandi slysum hafa menn látist. Viðbragðstíminn var undraskjótur sé haft í huga að velja þarf sérfræðinga, afla búnaðar, veita vegabréfsáritanir og undirrita formlegan samning um réttindi og skyldur hjálparliðsins.

Viðbúnaðarmiðstöðin hefur á undarförnum árum lagt áherslu á útgáfu rita til að byggja upp viðbúnað gegn geislavá, annarrar en þeirrar sem stafar frá kjarnorku. Á síðasta ári var gefið út leiðbeiningarit fyrir viðbragðsaðila (t.d. lögreglu og slökkvilið) sem hefur orðið mjög vinsælt, t.d. sótt af vef IAEA 100 þúsund sinnum, sem er einsdæmi. Efni þessa rits hefur einnig verið sett á vefsíðu og fyrir frumkvæði Geislavarna ríkisins, þá var efni vefsíðunnar sett á rafrænt form, þannig að ekki þarf nettengingu (efni læsilegt á ýmsu formi, t.d. í tölvum og lófatölvum). Á fundinum var Geislavörnum ríkisins þakkað fyrir þetta frumkvæði og fram kom að IAEA mun fylgjast með frekari þróun og prófunum Geislavarna. IAEA hyggst nýta niðurstöður og dreifa efninu á þessu nýja formi á næsta ári.

Sjá læsilegan fjórblöðung á PDF formi um starfssemi miðstöðvarinnar (þar sem m.a. er fjallað um viðbrögð við slysinu í Chile):
http://www.iaea.org/Publications/Factsheets/English/iec.pdf

Upplýsingar um miðstöðina er einngi að finna á eftirfarandi vefsíðum:
http://www-ns.iaea.org/tech-areas/emergency/incident-emergency-centre.htm
http://www-ns.iaea.org/tech-areas/emergency/default.htm