Uppfærsla 22:30

Þótt afgjafar hafa komið til Fukushima kjarnorkuversins, þá hefur ekki reynst unnt að koma rafmagni á kjarnakljúf 1 og 3 og kæling á þessum einingum hefur því ekki gengið sem skyldi. Þar sem þrýstingur hefur aukist í kjarnakljúf 1 hefur verið rætt um að hleypa gasi sem er geislavirkt út úr honum.  Þótt geislun í nágrenni myndi aukast tímabundið við það, þá væru heilsufarsleg áhrif takmörkuð.  Hins vegar getur það verið alvarlegt ef ekki tekst að ná fullum tökum á ástandinu.  Geislavarnir munu halda áfram að fylgjast með ástandinu og uppfæra lýsinguna á þessari vefsíðu.

Upphafleg frétt:

Jarðskjálftinn sem varð í nótt hefur haft hörmulegar afleiðingar og flóðbylgjan á væntanlega eftir að valda enn frekara tjóni. Hér verður ekki reynt að bæta frekar við almennar fréttir af þessum sorglega atburði. Einn þáttur þessa atburðar snertir þó starfsemi Geislavarna ríkisins, það er mat á hugsanlegri hættu vegna bilunar sem jarðskjálftinn kann að hafa valdið í kjarnorkuverum. Fréttir bárust af því að kælikerfi kjarnorkuversins í Fukushima Dai-ichi hafi brugðist og að neyðarástandi hafi verið lýst yfir tímabundið, jafnvel að íbúum í grenndinni hafi verið ráðlagt að flytja burt tímabundið. Nú hafa fregnir borist af því að takist hafi að ná stjórn á kjarnakljúfunum í kjarnorkuverinu og neyðarástandi hafi verið aflétt.

Kjarnakljúfur er aflgjafi kjarnorkuvers og bilun á kælikerfi kjarnakljúfs getur haft alvarlegar afleiðingar. Kjarnakljúfurinn hitnar vegna keðjuverkandi kjarnaklofnunar og orka hans er beisluð með því að veita varmanum með hringrás í túrbínur líkt og gert er við beislun jarðhita. Ef kælingin bilar hins vegar, þá getur kjarnakljúfurinn ofhitnað og það síðan leitt til þess að geislavirk efni sleppi að lokum til umhverfis.  Í kjarnorkuverum eru hins vegar margvísleg öryggiskerfi sem grípa má til ef aðalkæling bregst.  Það virðist hafa tekist hér þrátt fyrir þennan gríðarlega öfluga skjálfta.  Nánari fróðleik um kjarnakljúfa og kjarnoruver má finna hér.

Geislavarnir ríkisins hafa fylgst með þróun þessa máls í samvinnu við Alþjóðakjarnorkumálastofnunina (IAEA) og norrænar geislavarnastofnanir. Geislavarnir eiga einnig samstarf við Borgaraþjónustu Utanríkisráðuneytis. Fylgst verður áfram með þróun mála í kjarnorkuverunum í Japan og ráðgjöf verður veitt Borgaraþjónustunni eftir þörfum og upplýsingar í þessari frétt verða jafnframt uppfærðar ef tilefni er til.

Nánari upplýsingar veitir Sigurður Emil Pálsson,

sep@gr.is