Næsta haust verður haldin vinnustofa um gammagreiningu í Reykjavík, GammaRay 2018. Þar verður fjallað um mælingar á geislavirkni og greiningu á mæliniðurstöðum ásamt almennara efni um tengda starfsemi. Áhugasömum er m.a. boðið að taka þátt í samanburðarmælingum og samanburðargreiningum á mæliniðurstöðum, auk þess sem leitast er við að kynna nýjungar á sviði mælitækni og greiningaraðferða.

NKS er samstarfsvettvangur norrænna geislavarna- og kjarnorkueftirlitsstofnana um rannsóknir sem varða öryggi kjarnaofna, viðbúnað og geislavistfræði. Geislavarnir ríkisins hafa um langt árabil tekið virkan þátt í verkefnum á vegum NKS. GammaRay 2018 er sjálfstætt framhald af fyrri vinnustofum um svipað efni: GammaWorkshop (2011-2012), GammaTest (2013), GammaUser (2014), GammaSpec (2016) og GammaSpec (2017).

Vinnustofan verður haldin dagana 25. og 26. september 2018. Þeir sem kynnu að hafa áhuga eru beðnir að tilkynna þátttöku með því að fylla út skráningarblað sem er að finna hér og senda það til Geislavarna ríkisins með tölvupósti eigi síðar en 1. september 2018. Þátttaka er ókeypis.

Nemar og yngra vísindafólk eru sérstaklega hvött til að nýta sér viðburði NKS.