Hinu hnattræna eftirlitskerfi CTBTO (Comprehensive Nuclear-Test-Ban Treaty Organization) er ætlað að nema kjarnorkusprengingar í þeim tilgangi að fylgjast með að allsherjarbanni við tilraunum með kjarnavopn sé framfylgt. Til þess er beitt mælingum á jarðhræringum, lágtíðnihljóði í andrúmslofti og hlerun í hafi, auk mælinga á geislavirkni í andrúmslofti. Einnig segir í alþjóðasáttmálanum um allsherjarbann við kjarnorkutilraunum að styðjast megi við frekari gögn, og möguleiki er á að bæta í kerfið fleiri tegundum mælinga. Þannig er stöðugt fylgst með nýjungum og rannsóknum sem nýst gætu á þessu sviði. Var vísinda- og tækniráðstefna sem haldin var í Vínarborg 8.-10. júní sl. helguð þessu efni, en helstu markmið hennar voru að

·        ræða framfarir í vísindum og tækni á sviði vöktunar á kjarnorkusprengingum

·        kanna vísindalegt gildi eftirlitskerfis CTBTO

·        efla tengsl og miðlun upplýsinga milli CTBTO og vísindasamfélagsins

 

Eftirlitskerfi CTBTO hefur vakið síaukna athygli vísindamanna og er mikill áhugi á gögnum frá því sem nýst gætu við rannsóknir á veðurfarsbreytingum, haffræði og lífkerfi sjávar, flug- og sjóslysum, eldgosum og hegðun íshellna, svo örfá dæmi séu tekin. Hins vegar er um þessar mundir enn meiri áhugi á mikilvægi kerfisins vegna viðbúnaðar, en á grundvelli þess var t.d. hægt að gefa út flóðbylgjuviðvörun örskammri stundu eftir skjálftann mikla undan ströndum Japans 11. mars sl. Síðar mældust geislavirk efni frá hinu laskaða kjarnorkuveri í Fukushima víðsvegar um norðurhvel jarðar, m.a. í mælistöð á Íslandi, fyrstu Evrópulanda. Geislavarnir ríkisins hafa um árabil annast rekstur þeirrar mælistöðvar og er hún mikilvægur hluti af viðbúnaði Íslands gegn kjarnorkuvá og sannaði þarna gildi sitt. Frá því slysið varð hafa gögn frá kerfinu verið helsta heimild fjölda alþjóðastofnana og ríkja um útbreiðslu geislavirkra efna frá Fukushima.

 

Frekari fróðleik um ráðstefnuna má nálgast hér, svo og um eftirlitskerfi CTBTO.

 

07.07.2011

KG