Sækja þarf um leyfi til notkunar jónandi geislunar í vísindarannsóknum eða í skimunum.

Við mat á geislaálagi þátttakenda í vísindarannsóknum gildir almennt eftirfarandi:

  • Geislaálag einstaklings sem valinn er með tilviljanakenndum hætti til þátttöku eða boðin þátttaka í hóprannsókn megi ekki vera meira en 1 mSv.
  • Geislaálag þess sem valinn er til þátttöku vegna sjúkrasögu í fjölskyldu sé ekki meira en 5 mSv
  • Í sérstökum tilfellum er hægt að samþykkja allt að 10 mSv enda sé um lítinn vel skilgreindan hóp að ræða sem getur haft verulegt gagn af rannsókninni.

Í upplýstu samþykki þátttakenda í rannsókninni þurfa að koma fram upplýsingar um þá geislun sem þátttakandi verður fyrir samþykki hann þátttöku. Hægt er að fá ráðleggingar frá Geislavörnum ríkisins við gerð á slíkum texta. Eftirfarandi er form fyrir slíkan texta þar sem hornklofarnir vísa í töflu 1:

Geislaálag vegna þátttöku í rannsókninni er sambærilegt við náttúrlega bakgrunnsgeislun á Íslandi í [tímabil]. Náttúruleg bakgrunnsgeislun er í öllu okkar umhverfi. Hún kemur frá himingeimnum, jarðskorpunni og geislavirkum efnum í líkama okkar. Þessi geislun er lítil á Íslandi og mun minni en annarstaðar á Norðurlöndum. Miðað við þá geislun sem hér um ræðir er það mat Geislavarna ríkisins að áhætta vegna þátttöku í rannsókninni sé [áhætta], sbr. það sem að ofan segir.

Tafla 1.

Geislaálag vegna þátttöku [mSv]* [tímabil] [áhætta]
0,2 2 mánuðir hverfandi
1,0 11 mánuðir mjög lítil
2,0 2 ár lítil
4,0 3,5 ár nokkur

*Á einungis við um fullorðna þátttakendur.