Geislavarnir ríkisins hafa með höndum vöktunarmælingar á geislavirkum efnum í matvælum og umhverfi og fylgjast þannig stöðugt með því að styrkur þeirra sé innan eðlilegra marka. Niðurstöður mælinganna má nálgast í skýrslum á vef stofnunarinnar. Vöktun Geislavarna ríkisins á geislavirkum efnum í matvælum og umhverfi hófst árið 1990. Sumarið 1989 fékk stofnunin tækjabúnað frá Alþjóða­kjarn­orku­mála­stofnuninni (IAEA) til gammarófsmælinga. Sá búnaður er enn í notkun en við hafa bæst m.a. færanlegur gammarófsmælir sem nota má til mælinga á vettvangi og skimunarkerfi sem notuð verða til mælinga á náttúrulegri bakgrunnsgeislun á Íslandi. Með gammarófsmælingu má þekkja og magngreina gammageislandi kjarntegundir í sýnum og á vettvangi af nákvæmni, oftast án efnafræðilegrar forvinnu. Hér á landi hefur aðaláhersla í vöktunarmælingum verið lögð á mælingar á Cs-137, líkt og hjá flestum öðrum þjóðum. Markmið vöktunarmælinganna er að fylgjast með styrk geislavirkra efna í íslensku umhverfi og jafnframt að afla gagna sem nýta má til að auka skilning á hegðun geislavirkra efna í umhverfinu. Samhliða vöktunarmælingum hafa verið stundaðar rannsóknir í geislavistfræði, þar sem áhersla er lögð á að rannsaka tilfærslu geislavirkra efna í náttúrunni, s.s. úr jarðvegi í gróður, búfénað og landbúnaðarafurðir. Sérstaklega hefur verið hugað að því að auka skilning á þeim þáttum sem kunna að vera einstakir fyrir íslenskt umhverfi, s.s. eiginleikum eldfjallajarðvegs til að binda sesín. Styrkur sesíns hefur verið mældur reglulega í:

  • Andrúmslofti (svifryki)
  • Úrkomu
  • Kúamjólk og mjólkurdufti
  • Lambakjöti
  • Sjó
  • Þangi
  • Fiski

Í tengslum við rannsóknir í geislavistfræði hafa verið mæld ýmis önnur sýni, s.s. af sjávarspendýrum, vatnafiski, villtum fuglum, hreindýrum, ótal tegundum plantna, fóðri, mjólk frá einstökum býlum og jarðvegi frá ósnortnu og ræktuðu landi um allt land.