Nýútgefin skýrsla um niðurstöður vöktunarmælinga Geislavarna ríkisins á styrk geislavirks sesíns í andrúmslofti, úrkomu, mjólk, lambakjöti, sjó, fiski, þangi ofl. á árinu 2012 hefur verið birt á vef stofnunarinnar. Skýrsluna, „Vöktunarmælingar Geislavarna ríkisins 2012, GR 13:04“, má nálgast hér á PDF formi.

Styrkur Cs-137 er í öllum tilvikum langt neðan þeirra marka sem miðað er við í milliríkjaviðskiptum með matvæli. Í skýrslunni eru teknar saman niðurstöður vöktunarmælinga Geislavarna ríkisins á geislavirku sesíni (Cs-137) í umhverfinu og í matvælum árið 2012. Sesín-137 er reglulega mælt í eftirfarandi flokkum sýna: 

  • Andrúmslofti (svifryki)
  • Úrkomu
  • Kúamjólk (mjólk í neyslupakkningum og mjólkurdufti)
  • Lambakjöti
  • Sjó
  • Þangi
  • Fiski

Niðurstöður mælinga benda til að litlar breytingar hafi orðið á styrk sesíns síðustu árin og að a.m.k. sé ekki um marktæka aukningu að ræða. Í sjó mældist styrkur sesíns 1,19-1,85 Bq/m3 og í fiski 0,07 til 0,22 Bq/kg ferskvigt. Í mjólk mældist styrkur sesíns 0,4 – 1,7 Bq/kg ferskvigt og í mjólkurdufti 7,5 -13 Bq/kg þurrvigt. Styrkur sesíns í lambakjöti er jafnan breytilegur, í sýnum frá árinu 2012 mældist hann 0,4 – 37,7 Bq/kg, meðaltal er 12,2 Bq/kg sem má telja dæmigert.